Kvæðamannafélagið Árgali

ÁrgaliKvæðamannafélagið Árgali var stofnað 8. mars árið 2010. Félagsstarfið hefur mælst vel fyrir. Stofnendur voru 73 en eru nú farnir að nálgast 100. Þeir eru búsettir á svæðinu frá Austur-Eyjafjöllum til Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu. Sigurður Sigurðarson dýralæknir, búsettur á Selfossi, og Guðjón Kristinsson í Árbæ við Selfoss sóttu fundi reglulega hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni í Reykjavík, sem var stofnað í september 1929 og er elst kvæðamannafélaga. Þeir Guðjón höfðum fundið fyrir áhuga á Selfossi og víðar um Suðurland fyrir kvæðalist, en menn voru linir við að sækja fundi í Reykjavík. Þeir sammæltumst því um það að stofna ,,sitt eigið kvæðamannafélag” á Selfossi en ákváðu samt að vera áfram félagar í Iðunni og sækja þar fundi líka eftir megni. Sama má segja um Árgalafélaga á Selfossi þá Ragnar Böðvarsson og Inga Heiðmar Jónsson auk þess, sem Ólöf Erla Halldórsdóttir kona Sigurðar hefur fylgt honum á flesta fundi í báðum félögunum.

Sigurður leitaði að nafni á nýja félagið og fann í Fornaldarsögum Norðurlanda nafnið Árgala. Árgali er sá sem fyrstur er með hugmyndirnar og fylgir þeim eftir, sá sem fer fyrstur á fætur og kallar til verka. Sá sem vekur menn af svefni. Starfsemi félagsins var sniðin eftir starfi Iðunnar og er Árgali dótturfélagi Iðunnar, þar til félagið hefur komið undir sig fótunum. Þannig mættu félagsmenn Árgala njóta reynslu Iðunnarmanna, sækja fundi þeirra og atburði. Fundarstaður var skemma fomanns í Árbæ, gömul hlaða og vinnustofa formanns. Í seinni tíð höfum við mæst í Sunnlenska bókakaffinu við Austurveg á Selfossi hjá Bjarna Harðarsyni bóksala og blaðamanni og Elínu Gunnlaugsdóttur félaga okkar.

Tilgangur félagsins er, samkvæmt lögum, sem samþykkt voru á stofnfundi, að kenna kvæðalög (stemmur) og æfa þau (stunda kvæðalist), iðka vísnagerð og miðla fróðleik um bragfræði. Ákveðið var að leggja áherslu á það fyrst að kenna mönnum stemmur en láta bragfræði og fróðleik annan bíða, læra sem fyrst að kveða sem flestar stemmur. Árgalafélagar beitt sér fyrir því að sem flestir eignuðust bókina ,,Silfurplötur Iðunnar” og læsu sér til. Nú eru um 30 félagar okkar eigendur þessarar bókar.

Ákveðið var að hafa einn fund í mánuði, í senn félagsfund og kvæðalagaæfingu. Sá fundur skyldi haldinn annan mánudag í mánuði, byrja kl. 20 og ljúka aldrei seinna en kl. 22. Ákveðið var að taka þrjár nýjar stemmur fyrir á hverjum fundi - byrja á þeirri fyrstu í Silfurplötunum og taka þær síðan í réttri röð - en jafnframt rifja upp þær stemmur, sem áður höfðu verið æfðar. Þessu hefur verið haldið síðan.

Í marslok 2013 hafa verið æfðar hátt í 70 stemmur af þeim 200, sem á Silfurplötum Iðunnar eru. Hópur kvæðamanna í félaginu kann þær flestar nokkurn veginn og á auðvelt með að rifja þær upp með stuðningi af bókinni og diskunum sem fylgja henni. Sumar stemmur kunna menn mjög vel. Fundargestir eru á bilinu 20-40 og er félagsandinn orðinn mjög góður. Gleði ríkir í hópnum frá upphafi til enda funda. Gáskafullar athugasemdir fljúga á milli manna og í ,,góðsemi vegur þar hver annan".

Á fundum er byrjað á því að leika nokkrum sinnum af geisladiskum úr bókinni, stemmur þær, sem æfa skal. Smátt og smátt taka menn undir og þegar hópurinn allur hefur lært stemmuna, þá kveða án undirleiks 3-4 kvæðamenn í senn koll af kolli. Boðkefli er notað til að skipta á nýjan hóp og haldið er á uns allir kunna vel með stemmurnar að fara. Vani er að senda með fundarboði fyrripart vísu til að botna og menn kasta fram vísum á fundinum og í fundarhléi eftir andagift, efni og ástæðum. Þeim er safnað í hundadall formannsins, en virðulegri vísnaferja verður brátt lögð til.

Nýbreytni er að tilnefna einn til að fara með hugvekju, er seður gaman á fundi. Hún skal helst ekki taka lengri tíma en 5 mínútur. Flytjandi tilnefnir mann til hins sama á næsta fundi. Stemmuhirðir stjórnar æfingum, vísnahirðir heldur til haga vísum. Gefinn var í fyrstu kostur á æfingum eða námskeiðum utan funda fyrir þá, sem sérstakan áhuga hefðu á því að læra sem fyrst að kveða. Það gerðum við nokkrum sinnum, en aðsókn tók að dræmast, þegar þeir áhugasömustu voru komnir á skrið. Við ástundum það, að kenna mönnum stemmur, hvenær sem því verður við komið og kyndum undir áhugann eftir aðstæðum.

Komið er að því að ræða um skipulegar heimsóknir og kennslu á vegum félagsins fyrir leikskóla, barnaskóla, sjúkrahús og dvalarheimili aldraðra og ýmsar samkomur. Slíkum heimsóknum hafa einstakir félagar sinnt nokkuð að eigin frumkvæði og eftir óskum þar um. Við tókum í nafni félagsins þátt í dagskrá á menningarnótt Reykjavíkur hinn 18. ágúst sumarið 2012 og haustið 2012 vorum við með dagskrá í Litla-Leikhúsinu á Selfossi. Í bæði skiptin tóku þátt þroskaðir Árgalar og nokkrir fulltrúar ungra kvæðamanna 10-11 ára og allt niður í leikskólabörn, jafnvel 4 ára gömul.

Fésbók eða Nefskinna Árgala er stofnuð.

Stjórn og embættismenn Árgala

Formaður:  Guðjón Kristinsson - gudjonstefan@gmail.com - 482 1087, 894 2934
Varaformaður:  Sigurður Sigurðarson - sigsig@hi.is - 482 2220, 892 1644
Ritari:  Kristján Runólfsson - minjasafnkr@visir.is - 453 7015, 897 7822
Vararitari:  Hildur Hákonardóttir - hildurhak@simnet.is - 482 2190, 849 8467
Féhirðir:  Gylfi Guðmundsson - ekki@internet.is - 482 2109, 896 3646
Varaféhirðir: Margrét H. Hallmunds - margrethronn@gmail.com - 482 1992, 895 1228
Skoðunarm.reikn: Arnheiður Jónsdóttir - arneyj@simnet.is - 482 2020, 848 1901
Varaskoðunarm: Ragnar Helgason - assaj@simnet.is - 482 2020, 848 1900

 

Stemmuhirðir: Sig. Sigurðarson - sigsig@hi.is - 482 2220, 892 1644
Vísnahirðir: Ragnar Böðvarsson - bolholt1@simnet.is - 482 3728, 849 6385
Nefskinnuhirðir: Linda  Ásdísardóttir - linda@eyrarbakki.is - 483 5620, 820 0620

 

Hér má nálgast lög Árgala.