Félag ljóðaunnenda á Austurlandi

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað á Stöðvarfirði 20. júlí árið 1996. Í fyrstu stjórninni voru: Magnús Stefánsson Fáskrúðsfirði, formaður, Aðalsteinn Aðalsteinsson Fellabæ, ritari og Guðjón Sveinsson Breiðdalsvík, gjaldkeri. Núverandi stjórn er þannig skipuð: Magnús Stefánsson Fáskrúðsfirði, formaður, Arnar Sigbjörnsson Fellabæ, ritari og Hreinn Halldórsson Egilsstöðum, gjaldkeri. Í varastjórn eru Sólveig Björnsdóttir Laufási í Hjaltastaðaþinghá og Ína D. Gísladóttir Neskaupstað.                                      

Félagar eru nú 108 talsins og þriðjungur þeirra býr utan Austurlands. Félagar greiða ekkert eiginlegt árgjald en kaupa þess í stað eitt eintak af árlegri bók félagsins sem gefin er út í flokknum Austfirsk ljóðskáld.                                

Um hlutverk félagsins segir svo í starfsreglum þess:

„Tilgangur félagsins er að skapa ljóðaunnendum, skáldum og hagyrðingum á Austurlandi sameiginlegan vettvang til að vinna að hugðarefnum sínum og að efla kynni sín á milli. Tilgangur félagsins er einnig að kynna og efla ljóðlist á Austurlandi. Þá er átt við sem flestar gerðir ljóðlistar, lausavísur jafnt sem kvæði og hvort sem ljóðin teljast hefðbundin eða nútímaljóð.“                          

Allt frá stofnun hefur félagið gengist fyrir fjölmörgum ljóðakvöldum og einnig nokkrum hagyrðingamótum. Ljóðakvöldin hafa verið haldin nokkuð vítt um fjórðunginn og flest árin hefur verið haldið eitt ljóðakvöld hið minnsta. Ævinlega er boðið upp á vandaða og vel undirbúna dagskrá þar sem félagar og gestir þeirra flytja ljóð og annað efni og jafnan lögð áhersla á að hafa tónlistaratriði á dagskránni. Ljóðakvöld hafa verið haldin á eftirtöldum stöðum: Djúpavogi, Breiðdalsvík, Reyðarfirði, Hjaltalundi, Svartaskógi, Skriðuklaustri og á Arnhólsstöðum í Skriðdal í félagi við Harmoníkufélag Héraðsbúa. Á Egilsstöðum hafa nokkur ljóðakvöld verið haldin, síðast í Gistihúsinu á Egilsstöðum 8. mars síðastliðinn. Fjögur síðustu haust hefur félagið haldið ljóðakvöld – á dögum myrkurs – í Seldal í Norðfirði. Þau hafa öll heppnast ákaflega vel og verið fjölsótt, haustið 2010 voru gestirnir til dæmis 80 talsins. Iðulega hafa margir gestanna haft á orði að ljóðakvöld í Seldal mætti verða að árlegum viðburði.              

Félagið hélt samkomu á Skjöldólfsstöðum 13. júlí 2012, á fæðingardegi Hákonar Aðalsteinssonar, í samvinnu við Aðalstein Jónsson sem rekur þar ferðaþjónustuna Á hreindýraslóðum. Flutt var dagskrá helguð hinum hagmæltu systkinum frá Heiðarseli í Jökuldalsheiði, Einari, Sólveigu, Arnheiði og Hallveigu Guðjónsbörnum. Ragnar Ingi Aðalsteinsson flutti erindi um systkinin og verk þeirra og lesið var og sungið efni eftir þau.                                                                                     

Þá hefur félagið staðið fyrir tveimur helgarnámskeiðum í ljóðagerð og bragfræði. Það fyrra var haldið haustið 2006 með 16 þátttakendum og fjallaði um ljóðagerð en það síðara haustið 2010, með 25 þátttakendum og þar var fjallað um bragfræði. Þórður Helgason var leiðbeinandi á fyrra námskeiðinu en Ragnar Ingi Aðalsteinsson á því síðara. Námskeiðin voru haldin í Menntaskólanum á Egilsstöðum, mikil ánægja var með þau og þóttu þau takast vel. Stjórnendur Menntaskólans hafa sýnt félaginu mikinn velvilja og skilning og félagið hefur fengið inni í skólanum þegar það hefur þurft á að halda.         

Frá haustinu 2006 hefur lítill en áhugasamur hópur komið saman mánaðarlega yfir vetrartímann á svokölluðum ljóðastundum. Þær voru fyrst haldnar í Egilsstaðaskóla en fluttust síðan í Menntaskólann. Skipulag ljóðastundanna er fremur frjálslegt, þátttakendur fara með eigin ljóð eða skáldskap annarra höfunda. Oft er rætt um ljóðin og athugað ýmislegt sem betur mætti fara í ljóðagerðinni. Ljóðastundirnar eru öllum opnar, jafnt félagsmönnum sem öðrum gestum og engin kvöð lögð á þátttakendur að þeir flytji þar ljóð. Ljóðastundirnar eru félögunum til ánægju, auka kynni meðal þátttakenda og efla félagsandann.   

Útgáfa ljóðabóka hefur orðið viðamesta verkefni félagsins og fyrsta bókin, Raddir að austan, safn ljóða eftir 122 austfirska höfunda, kom út árið 1999. Tveimur árum síðar, eða árið 2001, hóf félagið útgáfu á flokk ljóðabóka sem hlaut heitið Austfirsk ljóðskáld og síðan hefur komið út ein bók í flokknum árlega og eru þær því orðnar tólf talsins. Fyrsta bókin í flokknum var bók Sigurðar Óskars Pálssonar, Austan um land. Hún seldist fljótt upp og kom út í nýjum búningi haustið 2010, þá sem aukabók og í kiljuformi. Bók Kristínar Jónsdóttur, sem kom út haustið 2009, hefur hlotið svo mikla athygli og aðdáun að fátítt er um ljóðabækur. Hún hefur selst sérstaklega vel og fimmta prentun hennar kom í bókaverslanir í desemberbyrjun 2011. Auk bókaflokksins hefur félagið gefið út nokkrar aukabækur og eru bækurnar orðnar átján að tölu.     

Fram undan er stórvirki í útgáfumálum, á næsta ári kemur út á vegum félagsins, með fulltingi Erlusjóðs og fleiri aðila, ritsafn Guðfinnu Þorsteinsdóttur (Erlu). Þar verða prentuð öll áður útgefin verk Guðfinnu og úrval úr óprentuðu efni. Ritsafnið verður fimm bindi, alls yfir 1.500 síður. Ritstjóri verksins er Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir íslenskufræðingur og er hún að ljúka viðamikilli ritgerð um Guðfinnu og verk hennar. Formaður vinnur að útgáfunni fyrir hönd félagsins. Áskrifenda að ritsafninu verður aflað fyrir útkomu þess.

Bækur Félags ljóðaunnenda á Austurlandi

Raddir að austan – Ljóð Austfirðinga - 1999

Austan um land – Sigurður Óskar Pálsson - 2001

Vængjaþytur vorsins – Ásdís Jóhannsdóttir - 2002

Það er svo margt – Einar E. Sæmundsen - 2003

Fljótsdalsgrund – Jörgen E. Kjerúlf - 2004

Munum við báðar fljúga – Stefanía G. Gísladóttir - 2004

Í hélu haustsins – Helgi Seljan - 2005

Laðar nótt til ljóða – Bragi Björnsson - 2006

Til blárra fjalla tinda – Þórey Jónsdóttir - 2007

Vébönd – Þorsteinn Bergsson - 2008

Geislaþytur – Gunnar Valdimarsson - 2009

Og lífsfljótið streymir – Oddný Sv. Björgvins - 2009

Bréf til næturinnar – Kristín Jónsdóttir - 2009

Jörðin kallar á börnin sín – Sigurjón Jónsson - 2010

Austan um land, 2. útg. – Sigurður Óskar Pálsson - 2010

Lausagrjót úr þagnarmúrnum – Ingunn V. Sigmarsdóttir - 2011

Bláklukkur – Guðrún Valdimarsdóttir - 2011                          

Handan við ljóshraðann – Sigrún Björgvinsdóttir - 2012