Landsmótsvísur

Sunnudagsmorguninn 24. apríl var aðalfundur Stemmu, þar var ýmislegt rætt, kosið í embætti og skýrslur lesnar. Erlendur maður af blönduðu þjóðerni, búsettur á Egilsstöðum, hefur verið hérlendis síðan 1978 og lært vel íslensku. Síðustu árin hefur hann einnig numið bragfræði sem áhugamaður enda vann hann snemma á 10. áratugnum að því að ljóðafélag yrði stofnað á Austurlandi. Sú vinna endaði með kosningu undirbúningsnefndar og síðan stofnun Félags ljóðaunnenda 1996. Hann gaukaði nokkrum vísum að Sigurði Sigurðarsyni sem bað svo Helga um að bæta einni við. Vísurnar flutti svo Sigurður í lok fundar, en þær voru svona:

Vísur Philips Vogler:

Á leið til fundar á reiðhjóli sínu að morgni dags:

Enn í dag ég fer á fund
þar fjallað er um kvæði.
Þar hæfa orðin háls og sprund
hátíð, sem er æði.

Fundarstjóri í vanda:

Dagskrá tóm til hálfs og haus
en hefja fundinn varð.
Við þetta ástand fyrst ég fraus,
en fylla tókst í skarð.

Frá gjaldkera:

Gróða aukið get ég hag
ef gætin er með fé.
Þetta blað má duga í dag
þótt dáldið fátækt sé.

Um Vatnsnesinga:

Hrafna vantar hluta á þing,
hamla langir vegir
Vantar langmest Vatnsnesing
en verða bráðum fleygir.

 

Sigurður bað Helga Zimsen að auka við einni vísu í lok skýrslna stjórnarmanna:

Skýrslur hér um skrafað er,
skoðað, hlustað, metið,
kosið vel og klappað hér,
en hvenær verður étið?

HelgiZ

Í framhaldi flutti Rósa Jóhannesdóttir vísu sem Philip Vogler hafði gaukað að Helga manni sínum kvöldið áður.  En ort var út frá því að Rósa og dætur höfðu spilað á fiðlur og kveðið.  Auk þess hafði Helgi kveðið sem er fremur fátítt en hefur þó borið meira á í seinni tíð.

Stígur nú á stokkinn Zimsen,
stúlkur báðar með.
Falla líka Rósa og Rimsen
rosa vel í geð.

Philip Vogler

 

Upp úr hádegi 25. apríl daginn eftir var ekið suður um firði á leið til Reykjavíkur.  Var þar margt laglegt á að líta svo sem hreindýr, álftahjarðir og ógrynni gæsa á túnum. Sunnan Vatnajökuls þvarr rútunnar kraftur sem fram til þess hafði reynst okkur vel og vorum við þá strandaglópar fimmtán saman.  Vel vildi þó til að útsýni var gott og létt yfir mannskapnum. Ein úr hópnum kom auga á Ragnar Inga Aðalsteinsson bruna hjá á sínum græna Subaru.  Hringt var í hann og fengu þar far Helgi, Rósa og börnin.  Aðrir tíndust heim á puttanum er á leið og að lokum bar að tóma rútu sem flutti síðustu strandaglópana í bæinn.