ÞjóðList

Merki ÞjóðListarÞjóðList ehf var stofnað í júlí 2011 með það að markmiði að efla íslenska þjóðtónlist og þjóðdansa. Efling grasrótarinnar er megin forsenda þess að hægt sé að viðhalda lifandi hefðum og þess vegna miða verkefni þjóðlistar að því að styrkja samfélög og einstaklinga kvæðamanna og þjóðdansara. Annað mikilvægt atriði er að auka rannsóknir á hefðinni svo þróun hennar sé byggð á vitrænum efnisþáttum og að tónlistar- og dansflutningurinn sé í samhengi við það sem á undan er gegnið.

Til að auka almenna og sértæka þekkingu, færni og virðingu fyrir íslenskri þjóðtónlist og þjóðdansi og stuðla að lifandi þróun þessara hefða þarf að halda tónleikar, danssýningar og námskeið. Jafnframt þarf að auka aðgengi þjóðdansara, kvæðamanna og þjóðtónlistarmanna að innlendum og erlendum þjóðlistahátíðum og gefa þeim tækifæri til að kynnast erlendum þjóðlistamönum sem margir hverjir hafa mikla reynslu og menntun í sinni þjóðtónlist/dansi. Enn fremur er vert að gera sér grein fyrir því að þjóðlegir tónleikar, sýningar og námskeið auka gæði menningartengdrar ferðamennsku á Íslandi, auka tekjur þjóðlagahljómsveita, kvæðamannafélaga og þjóðdansara, auka sjálfstraust, færni og sýnileika hefðarinnar sem leiðir til fjölgunnar félaga og stuðlar að eðlilegri þróun.

Kvæðamenn í RauðkuViðfangsefni ÞjóðListar fyrr og nú eru m.a.

Kvæðamannamót: Í mars 2012 stóð ÞjóðList fyrir fyrsta kvæðamannamótinu í Siglufirði og ári síðar stofnuðu kvæðamenn samtök sem fengu nafnið Stemma - Landssamtök kvæðamanna. ÞjóðList og Stemma hafa haft umsjón með landsmótunum en á þessu ári var það Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sem stýrði landsmótinu á Egilsstöðum. Guðrún Ingimundardóttir, eigandi ÞjóðListar, var fyrsti formaður Stemmu, Bára Grímsdóttir tók við formennskunni á aðalfundi samtakanna árið 2017.

Þjóðlaga- og tvísöngvakver: ÞjóðList hefur gefið út þjóðlagakver þar sem kvæða- og þjóðlög frá tilteknum landshluta eru tekin út úr tæplega 1000 blaðsíðna forðabúri sr. Bjarna Þorsteinssonar, bókinni Íslensk þjóðlög. Lögin eru skrifuð upp á nýtt og valin við þau skemmtileg ljóð. Þingeyska þjóðlagakverinu fylgir geisladiskur þar sem heyra má lögin. Út eru komin tvö kver, annað með lögum frá Fjallabyggð og Fljótum og hitt frá Þingeyjarsýslu. Í vori kom svo út Tvísöngvakver með 16 af þeim 42 tvísöngslögum sem eru í bók sr. Bjarna.

Erfðir til framtíðar / Tradition for tomorrow var norræn þjóðlistahátíð og ráðstefnan sem haldin var á Akureyri 20. - 23. ágúst 2014, í samstarfi við Nordisk Folkmusik Kommitté og marga innlenda samstarfsaðila. Erfðri til framtíðar markaði 20 ára afmæli norrænu samtakanna Nordisk Folkmusik Kommitté, sem ÞjóðList er aðili að, og var hátíðin haldin til að vekja athygli á UNESCO samningnum um verndun menningarerfða sem Norðurlönd eru aðili að og beina kastljósinu að þjóðdönsum og þjóðtónlist Norðurlanda sem á í vök að verjast.

Kvæðamenn sem kváðu TístransrímurVaka: ÞjóðList stendur fyrir þjóðlistahátíðinni Vöku á Akureyri í maí/júní ár hvert. Hlutverk Vöku er að standa vörð um þjóðmenningu okkar og minna á mikilvægi þess að glata ekki tengslum við rætur okkar. Markmið Vöku er að vera vettvangur fyrir íslenska þjóðlistamenn til að koma fram, hittast, gleðjast saman og kynnast erlendum, vel menntuðum og reynslumiklum þjóðlistamönnum og einnig að auka almenna og sértæka þekkingu og virðingu fyrir íslenskum þjóðlistum

Samningur UNESCO um verndun óáþreifanlegs menningararfs (þ.e. menningarerfða): Guðrún Ingimundardóttir hefur farið á tvö námskeið til Þrándheims í Noregi til að læra af viðurkenndum kennurum UNESCO um samninginn um verndun menningarerfða (Training-of-trainers workshop: Implementing the UNESCO 2003 Convention at national level). Markmiðið með námskeiðunum er að þjálfa einstaklinga á Norðurlöndum til að geta haldið námskeið og aukið þekkingu og skilning á verndun menningarerfða í tengslun við innleiðingu samningsins.

Kortlagning menningarerfða: ÞjóðList gerði samning við menntamálaráðuneytið um að taka fyrsta skrefið í innleiðingu sáttmála UNESCO um verndun menningarerfða með því að skrá stofnanir, samfélög og hópa sem stunda menningarerfðir. Verkefnið hófst í mars á þessu 2015 og því líkur á haustmánuðum 2016.

Skráning menningarerfða heima í héraði: Haustið 2016 hófst vinna við samstarfsverkefni ÞjóðListar, Norsk senter for folkemusikk og folkedans í Þrándheimi og Midt norsk senter for folkemusikk og folkedans í Steinkjer. Verkefnið var styrkt af Norsk-íslenska menningarsjóðnum. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem menningarerfðir eru skráðar af íbúum í Fjallbyggð og Henning.  Markmiðið með verkefninu var að:

  1. Leita heppilegra leiða til að vinna með samfélögum við að skrá menningarerfðir sínar og skilgreina verkferla sem önnur samfélög geta síðan stuðst við.  
  2. Skrá menningarerfðir með því að nota ákveðið eyðublað og kanna hvort formið hentar. 3) Afla upplýsinga sem hjálpa til við að þróa landslista yfir menningarerfðir í Noregi og á Íslandi.

Samstarfshópur um innleiðingu UNESCO samningsins um verndun menningarerfða á Norðurlöndum: ÞjóðList er íslenski aðilinn að þessu norræna samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að efla samstarf og deila reynslu þeirra samtaka og stofnana á Norðurlöndum sem koma að, eða hafa mikinn áhuga á, innleiðingu samningsins.

Dansarar í MaramuresDans- og söngvar frá Rúmeníu: RHA, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri í samvinnu við ÞjóðList ehf. eru að ljúka samstarfsverkefni er varðar menningarerfðir með tveimur rúmenskum samstarfsaðilum, samtökum fyrirtækja í ferðamálum (National Association for Rural, Cultural and Ecological Tourism Maramureş) og Vasile Goldis háskólanum (Western University "Vasile Goldiş" Arad, Baia Mare Branch). Verkefnið ber heitið Maramures  - fjársjóður í menningararfi Evrópu (Maramureş a”living treasure”in the European cultural heritage) og er styrkt af Uppbyggingarsjóði EES 2009-2014, deild PA17/RO13 (EEA grants). Markmið verkefnisins er að varðveita menningararf Maramures og taka saman upplýsingar um menningu Rúmena aðalega og Íslendinga lítillega á sviðið þjóðtónlistar, handverks og þjóðdansa. Liður í verkefninu var heimsókn 17 dansara, söngvara og verkefnisstjóra frá Maramures til að taka þátt í Akureyrarvöku í lok ágúst.