Guðrún Ingimundardóttir

Guðrún Ingimundardóttir (Rúna) fæddist á Húsavík árið 1963. Hún ólst upp við söng, hljóðfæraleik, leiklist og dans og fór ung að læra söng og á píanó við Tónlistarskóla Húsavíkur. Eftir stúdentspróf á náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri, þar sem Rúna jafnframt stundaði nám í píanóleik, flautuleik, söng og tónfræðigreinum við Tónlistarskólann á Akureyri, hóf hún nám á tónfræðibraut Tónlistarskólans í Reykjavík. Hún útskrifaðist þaðan vorið 1987 með bakkalársgráðu í tónlist, lauk meistaragráðu í tónsmíðum/tónfræði frá University of Arizona vorið 1990 og doktorsgráðu í tónsmíðum/tónlistarmannfræði frá sama háskóla vorið 2009. Helstu störf eru tónlistarkennari og kórstjóri í Fjallabyggð; Starfsmannastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli; Verkefnisstjóri fyrir Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar; leiðbeinandi nemenda í bakkalárs- og meistaranámi við Listaháskólann og Háskólann á Bifröst.

Rúna hefur flutt fyrirlestra um íslenska þjóðtónlist í Kanada, Bandaríkjunum, Færeyjum og Noregi, haldið námskeið í kveðskaparlist og kennt tvísöng á Egilsstöðum, Siglufirði og í Kanada. Haustið 2011 stofnaði hún Kvæðamannafélagið Rímu í Fjallabyggð og síðan 2013 hefur hún kennt kveðandi við Tónlistarskóla Fjallabyggðar. Rúna er formaður Stemmu - Landssamtaka kvæðamanna, sem stofnuð voru á Landsmóti kvæðamanna 3. mars 2013.

Árið 2008 gekk Rúna til liðs við Nordisk Folkmusik Kommitté (NFK) og hefur tekið þátt í verkefnum þeirra síðan. Í samstarfi við NFK stýrði hún þjóðlistahátíðinni Tradition for Tomorrow / Erfðir til framtíðar sem haldin var á Akureyri í ágúst 2014 og er framkvæmdastjóri Vöku þjóðlistahátíðar sem haldin er í júní á Akureyri.

Hún hefur sótt námskeið í Noregi varðandi UNESCO samninginn um verndun menningarerfða og er þátttakandi í tveimur norrænum verkefnum er tengjast innleiðingu samningsins á Norðurlöndum.