Þjóðlistahátíðin 2014
20. – 23. ágúst 2014 var haldin norræn þjóðlistahátíð og ráðstefna á Akureyri með yfirskriftina Erfðir til framtíðar (Tradition for Tomorrow). Að verkefninu stóð Norræna þjóðtónlistarnefndin (Nordisk Folkmusik Kommitté) í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar var dr. Guðrún Ingimundardóttir, tónlistarfræðingur. Verkefnið var formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.
Á hátíðinni komu fram meira en 100 tónlistarmenn og dansarar frá Norðurlöndum og sýndu hvaða kraftur, fegurð og fjör býr í listformi byggðu á rótgrónum hefðum. Allir voru velkomnir á hátíðina, enda var hún vissulega fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst unga fólkið sem eflaust uppgötvar að nýja íslenska tónlistin teygir rætur sínar langt aftur í aldir.
Megin þema ráðstefnunnar var sáttmáli UNESCO um verndum menningarerfða. Hana sótti fjöldi fræðimanna, listamanna og embættismanna frá Norðurlöndum og víðar, til að taka þátt í umræðum, hlýða á og flytja um 50 fyrirlestrar. Öllum var velkomið að taka þátt í ráðstefnunni en nauðsynlegt var að skrá sig á hana.
Þjóðlistahátíðin
Hátíðin hófst með glæsilegri opnunarsýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri miðvikudagskvöldið 20. ágúst kl. 20:00, þar sem hægt var að njóta fjölbreyttra dans- og tónlistaratriða frá Norðurlöndum. Frá fimmtudegi til laugardagskvölds var síðan hægt að velja um fjöldann allan af viðburðum víðsvegar um bæinn og njóta margs af því besta sem norræn þjóðlist hefur upp á að bjóða. Á hátíðinni mátti heyra og sjá kraftmiklar hljómsveitir, fjörugan dans, flottan söng og hljóðfæraleik.
Einnig voru mörg námskeið í boði, s.s. að spila á kantele og þjóðlagafiðlu, syngja þjóðlög frá Finnlandi og Noregi, og dansa hambo, polska og vikivaka.
Hér eru upplýsingar um listamennina: Artists
Þegar þú smellir á mynd þá opnast síða með upplýsingum um listamennina. Tónleikar, danssýningar og námskeið fóru fram á mörgun stöðum á Akureyri, frá morgni fram á nótt, inni jafnt sem úti, fyrir gesti og gangandi, svo bærinn iðaði af fjöri. Viðburðastofa Norðurlands hafði umsjón með tónleikum, sýningum og námskeiðum.
Ráðstefnan
Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hafði umsjón með ráðstefnunni sem fór fram í húsakynnum Háskólans á Akureyri. Þar komu saman fræðimenn til að fjalla um norræna þjóðtónlist og þjóðdansa og norrænir ráðamenn til að kynnast fjölbreyttri flóru norrænnar menningar og skiptast á skoðunum um verndun menningarerfða. Um það bil 40 fræðimenn og listamenn héldu fyrirlestur á ráðstefnunni og má sjá yfirlit um þá hér: Presenters Upplýsingar um aðal fyrirlesara má finna hér: Keynote Presenters
Fjölmargir aðilar komu að undirbúningnum, svo sem ÞjóðList, RHA, Viðburðastofa Norðurlands, Menntamálaráðuneytið, Ferðaskrifstofa Akureyrar, Stemma – landssamtök kvæðamanna, Dansfélagið Vefarinn, Rannsóknarstofa í tónlistarfræðum við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Heimilisiðnaðarfélagið, Handraðinn, Útón, Íslandsstofa, og Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri.