Kantele, langspil og íslensk fiðla með Arja (fi), Báru & Chris (ís)

Hvenær: Fimmtudaginn 21. ágúst kl. 14:30 - 16:30
Hvar: Háskólanum á Akureyri

Á þessu námskeiði munum við fjalla um sögu þessara þriggja hljóðfæra, hlutverk þeirra í hefðbundinni tónlistarmenningu á Íslandi og í Finnlandi og hvernig við notum hljóðfærin í tónlist okkar í dag. Nemendur munu hafa aðgang að þessum hljóðfærum á námskeiðinu og læra grunnatriði í hvernig leika skal á þau.

Allir eru velkomnir. Þeir sem eiga þessi hljóðfæri eru beðnir um að koma með þau. Einnig er góð hugmynd að koma með upptökutæki til að taka upp lögin og fleira. 

Funi

Bára Grímsdóttir og Chris Foster eru dúettinn Funi. Bára Grímsdóttir söngkona og tónskáld hefur um langt árabil verið flytjandi íslenskra þjóðlaga og kvæðalaga. Hún ólst upp við kveðskap og söng foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal. Þegar fjölskyldan flutti suður til Reykjavíkur gerðust foreldrar hennar félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni og fór Bára jafnan með þeim á fundi og í sumarferðir félagsins. Bára er nú varaformaður kvæðamannafélagsins Iðunnar.  

Chris Foster ólst upp í Somerset á suðvestur Englandi. Þar heyrði hann fyrst ensk þjóðlög sungin og leikin og þar hóf hann tónlistarferil sinn. Hann hefur í þrjá áratugi komið fram á tónleikum víða á Bretlandseyjum, Evrópu og Norður Ameríku og skapað sér sess sem frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar. Með sínum sérstaka stíl flytur hann söngva sína um svo ólík efni sem rómantík, galdra, morð, áfengi, ástina, hjúskaparbrot og klæðskiptinga. Hvert lag er sérstök saga. Chris er fær gítarleikari sem galdrar fram næmar og smekklegar gítarútsetningar sem falla vel að lögunum sem hann syngur án þess að ofskreyta þau.

Arja Kastinen

Kanteleikarinn Arja Kastinen var fysrti finnski þjóðlagahljóðfæraleikarinn til að ljúka doktorsgráðu frá Síbelíusar Akademíunni í Helsinki. Hún heillaðist mjög af gömlu kantele spunahefðinni í Karelia héraðinu í Finnlandi og á árunum 1997-2000 hélt hún 5 tónleika byggða á hugmyndfræði og hljóðheimi þeirrar hefðar. 

Arja hefur fengið marga styrki og verðlaun fyrir tónlistarflutning, upptökur, kennslu og rannsóknir á hljóðfærinu kantele. Hún hefur leikið inn á 13 geisladiska og eru fjórir þeirra einleiksdiskar með Arja. Hún hefur einnig gefið út margar bækur um kantele hljóðfæraleikara í Finnlandi og kennslubækur fyrir mismunandi gerðir af kantele. 

Arja hefur haldið tónleika í Finnlandi í 25 ár og einnig víða í Evrópu, Bandaríkjunmum, Vietnam og núna loksins á Íslandi vegna Tradition for Tomorrow.