Þjóðlög Finnlands og Íslands með Ilona (fi), Báru & Chris (ís)

Hvenær: á föstudag kl. 10:00 - 12:00
Where: Í Háskólanum á Akureyri

Tvö ólík tungumál og tvær ólíkar sönghefðir. Hver er munurinn? Hvað er sameiginlegt? 
Við munum segja frá og kynna sönghefðir Finnlands og Íslands; runo-söngva frá Finnlandi og íslenska tvísöngva og kvæðalög. Við munum kenna eftir eyranu og nota mestan hluta tímans í að syngja saman.

Þátttakendur þurfa ekki að þekkja þessar sönghefðir, bara að vilja syngja. Það er góð hugmynd að koma með upptökutæki á námskeiðið og taka upp söngvana. 

Ilona Korhonen

Ilona Korhonen er sannur þjóðlaga söngvari  en tekur samt þátt í mörgum tónlistarstílum, fyrst og fremst sem söngkona. Hún hefur lagt fyrir sig mörg störf sem snúa að tónlistariðkun, s.s. tónsmíðar, samsöng, útgáfu, söng, kennslu, rannsóknir og ráðgjöf.

Funi

Bára Grímsdóttir og Chris Foster eru dúettinn Funi.

Bára Grímsdóttir söngkona og tónskáld hefur um langt árabil verið flytjandi íslenskra þjóðlaga og kvæðalaga. Hún ólst upp við kveðskap og söng foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal. Þegar fjölskyldan flutti suður til Reykjavíkur gerðust foreldrar hennar félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni og fór Bára jafnan með þeim á fundi og í sumarferðir félagsins. Bára er nú varaformaður kvæðamannafélagsins Iðunnar.  

Chris Foster ólst upp í Somerset á suðvestur Englandi. Þar heyrði hann fyrst ensk þjóðlög sungin og leikin og þar hóf hann tónlistarferil sinn. Hann hefur í þrjá áratugi komið fram á tónleikum víða á Bretlandseyjum, Evrópu og Norður Ameríku og skapað sér sess sem frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar. Með sínum sérstaka stíl flytur hann söngva sína um svo ólík efni sem rómantík, galdra, morð, áfengi, ástina, hjúskaparbrot og klæðskiptinga. Hvert lag er sérstök saga. Chris er fær gítarleikari sem galdrar fram næmar og smekklegar gítarútsetningar sem falla vel að lögunum sem hann syngur án þess að ofskreyta þau.