Benjamin Bech

Benjamin Bech

Benjamin Bech er hæfileikaríkur tónlistarmaður og vel menntaður í norrænni tónlist. Undanfarin ár hefur hann ferðast um Finnland, Ísland, Svíþjóð Noreg og Danmörku með hljóðfærin sín sem eru klarínett og bassaklarínett. Það að búa og læra í þessum löndum hefur gefið honum einstakt tækifæri til að skilja tónræn tengsl Norðurlandanna og gert honum kleift að skapa sérstakan norrænan hljóðheim.

Benjamin ólst upp í Danmörku og kynntist ungur þjóðdansi og þjóðtónlist og má finna áhrif uppvaxtaráranna í listsköpun Benjamins, hvort sem um er að ræða rannsóknir, fyrirlestra eða tónlistarflutning

Árið 2013 heimsótti Benjamin Þjóðlagahátíðina á Siglufirði þar sem honum var sagt að Íslendingar ættu ekki sömu fiðluhefð og hin Norðurlöndin. Þetta þótti honum undralegt í ljósi þess að fiðlan og fiðluleikarar voru vissulega til á Íslandi á sama tíma og á hinum Norðurlöndunum. Hann hafði samband við Tónlistarsafn Íslands og íslenska tónlistarmenn sem komu honum af stað í rannsókn á íslenskri fiðluhefð. Benjamin hefur nú heimsótt Ísland fjórum sinnum og safnað nótnablöðum og upptökum. Í maí 2015 mun hann dvelja í listamannabústað á Egilsstöðum og vinna að rannsókninni.

Á Vöku mun Benjamin fjalla um rannsókn sína á íslenskri fiðluhefð á námskeiði og einnig spila Norræna þjóðlagatónlist á tónleikum.