Þræðir

ÞræðirTónlistarhópinn Þræði skipa Áslaug Sigurgestsdóttir, söngur, Dr. Charles Ross, ýmis hljóðfæri, Sunchana Slamnig, Sello, og Halldór Warén Hljóð, hljómborð ofl.

Ef til vill má kalla það sem hér heyrist ljóðrænan spuna. Áslaug Sigurgestsdóttir kveður og hjalar en undirleik og tilbrigði við lögin spinnur Charles Ross á fiðlu og ýmis önnur hljóðfæri. Diskurinn hefur að geyma 21 lag, gömul kvæðalög og ný tilbrigði sem að einhverju leiti eru byggð á gömlum stefjum. Gömlu kvæðalögin hafa áður nær eingöngu verið notuð við hefðbundinn kveðskap og flest ljóðanna á diskinum flokkast sem slík en hér er einnig leitast við að teygja kvæðalagið yfir í form nútímaljóða. Lögin eru tengd saman svo úr verður samfellt hljóðverk. Upptökustjórn og eftirvinna var í höndum Halldórs B.Warén. 

Um tónlistina segir Charles Ross: „Á síðastliðnu ári vorum við Halldór Warén svo lánsamir að fá tækifæri til að ferðast til Jakútíu og halda þar tónleikaröð ásamt söngkonunni Kjuregej. Við það að hlusta á þarlenda tónlist áttaði ég mig á því að hrynjandi og laglínur jakútískrar tónlistar væru á djúpsæjan hátt bæði líkar og ólíkar tónlist á norðurslóðum Evrópu. Hugmyndin á bak við spunann í mínum undirleik og í áframhaldandi útfærslu „tónlistarlandslags“ kvæðanna var sú að skapa einhvers konar blöndu tónlistar þeirra þjóða sem búa umhverfis norðurheimskautið; að íslensk ljóð og kvæði fái að hljóma samhliða öðrum hljóðheimum norðursins“.