Bára Grímsdóttir

Bára GrímsdóttirBára Grímsdóttir, söng- og kvæðakona, er einn virtasti flytjandi íslenskra þjóðlaga og nýtur einnig mikillar virðingar sem tónskáld. Hún ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði, allt frá barnæsku, kveðskap foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal. Bára hefur lengi fengist við flutning á kvæðalögum og margs konar íslenskri þjóðlagatónlist, bæði veraldlegri og trúarlegri. Hún hefur unnið með ýmsum kvæðamönnum og tónlistarfólki og sem tónskáld og útsetjari hefur Bára iðulega nýtt sér íslensk þjóðlög sem uppsprettu eigin sköpunar.

Bára og Chris Foster, hófu samstarf sitt árið 2001 og stofnuðu dúettinn Funa. Síðan hafa þau keppst við að blása lífi í íslenska þjóðlagatónlist sem hefur leynst í gömlum upptökum og lítt þekktum bókum og handritum, auk þess sem þau hafa bætt við nýjum lögum í þjóðlegum stíl. Flest laganna voru sungin án nokkurs undirleiks áður fyrr en Funi bætir hljóðfæraleiknum við. Notar gítar, kantele og hammer dulcimer, auk gömlu íslensku hljóðfæranna, langspils og íslenskrar fiðlu og einnig fylgir oft tónlist þeirra mögnuð skyggnimyndasýning með gömlum og nýjum myndum. Þau flytja kvæðalög, tvísöngslög, sálma og enskar ballöður, útsetja allt sjálf og hafa haldið námskeið og komið fram á ýmsum hátíðum og tónleikum, einnig í útvarpi, hér heima og víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína.

 Funi   Bára Grímsdóttir