Karlakór Akureyrar-Geysir

Karlakór Akureyrar-GeysirKarlakórs Akureyrar-Geysir (KAG) varð til þegar tveir rótgrónir karlakórar á Akureyri voru sameinaðir í nóvember árið 1999. Þetta voru Karlakórinn Geysir, stofnaður 1922 og Karlakór Akureyrar, stofnaður 1929. Báðir störfuðu kórarnir með miklum myndarbrag í áratugi á Akureyri. Þessu starfi og merkilegu sögu hafa félagar í KAG haldið á lofti.

Reglulegt starfsár KAG hefst í september og lýkur í maí. Hefðbundið starfsár felur í sér jólatónleika, vortónleika, söngferðir út og suður, söng á hátíðum yfir sumartímann, söng við jarðarfarir og ýmis önnur tækifæri. Félagar í KAG eru um 60 og heimili kórsins er í félagsheimilinu Lóni, sem KAG á og rekur.

Lög og söngtextar hafa verið samin sérstaklega fyrir kórinn í gegnum árin, auk þess sem sögu kórsins tengjast ýmsir sönghópar eins og hinir landsfrægu Smárakvartett og Geysiskvartett. KAG hefur gefið út tvo tónlistardiska. "Vorkliður" kom út árið 1997 og “Á ljóðsins vængjum” sumarið 2005. Á honum eru lög við ljóð Davíðs Stefánssonar. Þá fara félagar í KAG reglulega í söngferðir til útlanda. Þannig hefur KAG farið til Noregs, Finnlands, Eistlands og þrisvar til Ítalíu.

Hjörleifur Örn Jónsson er stjórnandi KAG í dag, en hann tók til starfa hjá kórnum árið 2012. Hann útskrifaðist frá jassdeild Tónlistarskóla FÍH árið 1993 og hóf árið 1999 tónlistarnám við Amsterdam Conservatorium. Árið 2007 lauk hann mastersnámi í slagverksleik og kennslufræðum við Hanns Eisler Hochschule für Musik í Berlín. Hann var skólastjóri Neue Musikschule í Berlin á árunum 2006-2008 og framkvæmdastjóri Hypno leikhússins. Hann er í dag skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri.