Kvæðasysturnar Anna og Stína

Anna Halldóra og KristínKristín og Anna Halldóra Sigtryggsdætur, kvæðakonur

Kristín og Anna Halldóra eru fæddar á Húsavík, Kristín árið 1960 en Anna Halldóra 1965. Þær ólust upp í Haga og í Fornhaga í Aðaldal til ársins 1971 er þær fluttust til Akureyrar með  móður sinni Önnu Fornadóttur og eldri systur Margréti. Kveðskapinn lærðu þær af móðurömmu sinni Margréti Hjálmarsdóttur sem bjó í Fornhaga til ársins 1965 er hún fluttist til Reykjavíkur. Margrét var fædd árið 1918 og var dóttir hjónanna Hjálmars Lárussonar og Önnu Halldóru Bjarnadóttur, sem voru miklir kvæðamenn. Hjálmar var sonur Sigríðar Bólu-Hjálmarsdóttur. Bólu-Hjálmar var þekkt skáld og kvæðamaður.

Þær systur kváðu ekki mikið sem unglingar og var það ekki fyrr en þær urðu fullorðnar sem kvæðaáhuginn kviknaði fyrir alvöru. Þær hlustuðu mikið á kveðskap ömmu sinnar, hennar systkina og langafa síns Hjálmars Lárussonar og lærðu af þeim listina og hafa reynt að halda í hefðina óbreytta. Kristín og Anna Halldóra eru stofnfélagar í Kvæðamannafélaginu Gefjuni sem var stofnað á Akureyri í nóvember 2005. Eftir það hafa þær komið fram við hin ýmsu tækifæri og miðlað þessari fornu hefð.

Kristín stóð fyrir þjóðlagatónleikum í mars 2012 sem tókust mjög vel og var þar blandað saman kveðskap og þjóðlagasöng. Ekki var eingöngu um íslensk þjóðlög að ræða heldur voru sungin þjóðlög frá Eistlandi, Færeyjum og Hollandi af þarlendum tónlistarmönnum búsettum á Íslandi. Kristín og Anna Halldóra hafa mikinn áhuga á því að miðla og kenna hina gömlu kvæðahefð og taka fagnandi hverju tækifæri sem gefst til kynningar. Þær hafa gaman af því að kveða saman því raddir þeirra hljóma mjög líkt þannig að stundum er eins og verið sé að hlusta á eina rödd. Nokkuð er til af upptökum með kveðskap þeirra systra, meðal annars varðveitt í Þjóðlagasetri Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Einnig má finna kveðskap Kristínar á ismus.is http://www.ismus.is/ásamt heilmiklu efni með kveðskap Margrétar Hjálmarsdóttur og Harðar Bjarnasonar seinni manns hennar http://www.ismus.is/i/person/id-1002183