Rósa, Rímsen og Tríó Zimsen

Rósa, Rímsen og Tríó ZimsenRósa, Rímsen og Tríó Zimsen er fjölskylduhljómsveit skipuð, Rósu Jóhannesdóttur, Helga Zimsen og börnum þeirra, Iðunni Helgu 11.ára, Grétu Petrínu 8 ára og
Jóhannesi Jökli 5 ára. Fjölskyldan sérhæfir sig í flutningi á texta sömdum af heimilisföðurnum Helga Zimsen. Einnig kennir ýmissa annarra grasa á tónleikum með þeim; íslenskar rímur og kvæðalög, fiðluleikur, langspils-og harmonikkuleikur, harðangursfiðlur, flutningur á þjóðlögum frá ýmsum löndum í söng og hljóðfæraleik.

Fjölskyldan hefur síðustu ár komið fram við hin ýmsu tækifæri. Allt byrjaði samstarfið í Kvæðamannafélaginu Iðunni og hafa börnin ásamt foreldrum sínum verið virkir þátttakendur í félaginu undanfarin ár. Helgi er hagyrðingur og hjá Iðunni starfar hann sem formaður Vísnanefndar  sem sér m.a. um að halda utan um vísur sem verða til á og í kringum fundi félagsins. Rósa starfar sem formaður Rímnalaganefndar hjá Iðunni. Sú nefnd sér um að halda utan um kennslu og varðveislu rímna félagsins. Börnin eru áhugasamir kvæðamenn og eru einkar dugleg við að mæta á fundi félagsins og kvæðalagaæfingar. Þau eru mikið fyrir söng, syngja öll í kórum Langholtskirkju. Þau spila öll á fiðlu og Iðunn lærir einnig á harmonikku. Meðal hátíða og tilefna sem fjölskyldan og börnin hafa komið fram á eru; 30 ára afmæli Gerðubergs, fundir Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Árgala á Suðurlandi, Landskappleiken í Noregi, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, Hólahátíð á Hólum í Hjaltadal, Háteigskirkja, Landsmót kvæðamanna á Egilsstöðum 2016, á Siglufirði 2017.