Vaka 2108
Þjóðlistahátíðin Vaka, 30. maí - 2. júní 2018
Spennandi tónleikar, námskeið, samspil og hugvekjur
Vaka er vinaleg þjóðlistahátíð sem býður upp á eitthvað fyrir alla. Á Vöku 2018 verða opnir kaffitónleikar á Bláu könnunni, kvöldtónleikar í Hömrum í Hofi, námskeið í dansi, söng og hljóðfæraleik, hádegishugvekjur og samspilsstundir í Hofi og á Götubarnum. Einnig verða tónleikar með listamönnum Vöku í byggðarlögum í nágrenni Akureyrar.
Harmonikutónlist, gömlu dansarnir og þjóðdansar verða í forgrunni auk rímnalaga og koma á hátíðina listamenn frá Noregi, Englandi, Hjaltlandseyjum og Finnlandi. Félag Harmonikuunnenda við Eyjafjörð og Dansfélagið Vefarinn á Akureyri verða áberandi á Vöku 2018, en auk þeirra kemur á Vöku 2018 hópur þjóðdansara og harðangursfiðluleikara frá Noregi og Danshópurinn Sporið ásamt sínum nikkurum kemur frá Borgarfirðinum.
Vaka 2018 er í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og Menningarfélag Akureyrar og verða 12 námskeið fyrir nemendur tónlistarskólans í hljóðfæraleik og söng. Haldin verða tvö námskeið, opin fyrir alla: þjóðdansar Íslands og Noregs og kórsöngur þar sem söngvarar fá tækifæri til að syngja fallegar og skemmtilega útsetningar á íslenskum þjóðlögum og kvæðalögum undir stjórn Báru Grímsdóttur.
Miðasala
Kvöldtónleikar 30 maí, 31. maí og 1. júní - kr. 2.800 *
Kaffitónleikar á Bláu könnunni - ókeypis
Samspilsstuð á Götubarnum - ókeypis