Útgáfuteiti

Margrét HjálmarsdóttirÚtgáfuteiti bókarinnar Segulbönd Iðunnar verður haldið í Hömrum, Hofi miðvikudaginn 30. maí kl. 16:30. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, fær afhent áritað eintak af bókinni.

Í bókinni eru 160 kvæðalög á nótum og frumhljóðrit úr segulbandasafni Iðunnar á 4 diskum sem hljóðrituð voru á árunum 1960 – 1970. Einnig er þar að finna fræðandi upplýsingar um kveðskap, bragfræði, kvæðamenn, skáld og brot úr sögu Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Kvæðamannafélagið Iðunn og Stofnun Árna Magnússonar standa fyrir þessari veglegu útgáfu og er Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur ritstjóri.

Ólíkt fyrri bók Iðunnar, Silfuplötum Iðunnar, þá eru í Segulbandasafninu margar upptökur af kvæðamönnum frá Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Skal þá helst nefna Margréti Hjálmarsdóttur kvæðakonu, en barnabörn hennar, Akureyringarnir Anna Halldóra og Kristín Sigtryggsdætur munu kveða á samkomunni nokkrar af uppáhalds stemmum ömmu sinnar. Einnig mun Barnakór Akureyrarkirkju syngja undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur kvæðalög úr Segulbandasafninu útsett af Guðrúnu Ingimundardóttur.

Silfurplötur IðunnarViðburðurinn er í tengslum við þjóðlistahátíðina Vöku sem hefst í Menningarhúsinu Hofi 30. maí og lýkur laugardagskvöldið 2. júní. Markmið Vöku er að standa vörð um tónlistar- og dansmenningu okkar Íslendinga og stendur því fyrir fjögurra daga tónlistar- og danshátíð þar sem íslenskir kvæðamenn, þjóðdansarar og harmonikuleikarar, ásamt þjóðtónlistarmönnum og þjóðdönsurum frá Noregi, Finnlandi, Hjaltlandseyjum og Englandi, koma fram á tónleikum og halda námskeið í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri.