Strilaringen

StrilaringenStrilaringen danshópurinn var stofnaður árið 1976 í Norður-Hörðalandi, sem er landsvæðið norður af Bergen, í vesturhluta Noregs. Tilgangurinn með stofnun hópsins var að halda lífi í norskum þjóðdönsum, tónlistar- og sönghefðum.

 Á síðustu fjörutíu árum hefur hópurinn tekið þátt í hátíðum víðsvegar um Evrópu og meira að segja ferðast alla leið til Tyrklands og Minnesota í Bandaríkjunum. Sjálf hafa þau svo haldið átta alþjóðlegar þjóðdansahátíðir í Norður-Hörðalandi sem gestahópar frá mörgum Evrópulöndum hafa heimsótt.

Hópurinn hefur sérstaklega gaman af hópdönsum þar sem þau geta deilt dönsum sínum með erlendum vinum og allir læra og kenna hverjir öðrum. Þau hlakka til að kenna ýmsa af norsku dönsunum sínum á Vöku.

Í gegnum árin hefur Strilaringen fengið marga frábæra tónlistamenn til að spila á þjóðarhljóðfæri Norðmanna, Harðangursfiðluna, og á Vöku koma Ottar Netteland, Arve Berg og Gro Vetås. Harðangursfiðlan hefur átta eða níu strengi; fjóra efri strengi sem leikið er á með boga á hefðbundinn hátt, auk fjögurra eða fimm samliggjandi strengja sem eru staðsettir undir efri strengjunum og víbra með þeim. Saman skapa þeir mjög sérstakan en fallegan hljóm. Fiðlurnar eru fallega skreyttar með skeljum og skrautmáluðum jöðrum. Fyrir ekki lengra en þrjátíu til fjörutíu árum var ekki leyfilegt að spila á Harðangursfiðluna í norskum kirkjum því sumir prestar töldu hana vera verkfæri djöfulsins. Sem betur fer trúir enginn því lengur.

Meðlimir Strilaringen klæðast yfirleitt norskum þjóðbúningum „Bunad“ á sýningum. Þar sem meðlimir hópsins koma víðsvegar frá í Noregi sjást hjá þeim búningar frá mörgum og ólíkum stöðum.