Dansfélagið Vefarinn

VefarinnDansfélagið Vefarinn var stofnað árið 2004 og á því 14 ára starfsafmæli í ár. Meginhlutverk félagsins er að kanna og kynna þær menningarhefðir, sem þjóðin á í þjóðdönsum og öllu, sem að þeim lýtur. Einnig hafa stjórnendur fundið nýrri lög og notað við þau sporin úr eldri dönsum. 

Íslenskir þjóðdansar/víkivakar 

Dans er talinn hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og segir T. Shawn (1946) að dans hafi komið á undan manninum sem marka megi af dansi fugla og annarra dýrategunda. Dans hefur borist frá kynslóð til kynslóða en virðist skráning ekki hefjast fyrr en á endurreisnartímabilinu. Fyrsta bókin sem vitað er um að hafi að geyma skráningu á dansi er eftir Antonius de Arena, gefin út árið 1536.

Þróun dansa vestrænna þjóða bendir til samfelldrar hefðar í a.m.k. 3000 ár. Hafa dansarnir einkennst af því að dansfólkið hélt saman höndum í lokuðum eða opnum hring og söng. Þessir hringdansar eru mjög gamlir líklega jafngamlir mínóísku menningunni á Krít þegar hún var í hámarki 1400-1200 f. Krist.

Íslenska orðið „dans“ kemur fram í elstu íslensku ritunum, t.d. kemur fram í æfisögu Jóns Ögmundssonar (varð biskup árið 1106) að hann bannaði dansa sem þekkst höfðu frá landnámsöld, vegna þess að þeir þóttu svo „blautlegir“ eða ósiðlegir. Virðist orðið dans vera upprunnið á Íslandi og þaðan komi notkun þess í öðrum tungumálum eins og ensku og frönsku o.fl. Þrátt fyrir bann biskups og bann síðar á öldum lifði dansinn af á Íslandi og þróaðist í tímans rás og fékk síðar nafnið Vikivaki.

Vikivakaleikir virðast margir hverjir mjög svo forneskjulegs eðlis, og eru enda leifar gamalla skrúðgönguleikja og dansa, sem tíðkuðust á Englandi og á meginlandi álfunnar á miðöldum. Blómaskeið vikivakaleikja var á 16., 17., og 18. öld, en eflaust má telja að þeir hafi líka komið fyrir á Íslandi á miðöldum. Vikivakar virðast helst hafa tíðkast á stórhátíðum, sérstaklega um jól og áramót. Þeir voru sennilega tilkomnir þannig að fólk mætti í kirkju til aftansöngs og þótti ekki taka því að fara heim fyrr en eftir messugjörð daginn eftir, t.d. á jólanótt. Þá var sungið og leikið til að halda á sér hita og hafa gaman.

Vikivakar voru á sínum tíma söngdansar, þar sem fólk safnaðist saman og byrjaði að syngja og kveða þjóðlög og kvæði og sporin voru svo sett saman við sönginn, en þó ennþá frekar við textann. Í bókinni Vikivakar og söngleikir eftir Helga Valtýsson (1930) segir að söngurinn sé aðalatriði vikivakanna, syngja þurfi með lífi og fjöri og með persónulegum blæbrigðum, því það sé söngurinn sem setji svip og mót á hreyfinguna. Vikivakinn á að verða ein lifandi, ljóðræn bylgja.