Sporið

SporiðDanshópurinn Sporið var stofnaður í Borgarfirði árið 1995 og hefur það að markmiði að kynna íslenska danshefð. Dansað er í íslenskum búningum, upphlut og hátíðarbúningi íslenskra karlmanna. Sporið hefur sýnt víða um land við ýmis hátíðleg tækifæri s.s. á þorrablótum, í afmælum, brúðkaupum og á bæjarhátíðum svo nokkuð sé nefnt. Í hópnum eru rúmlega þrjátíu manns, þar af eru tveir harmonikuleikarar sem sjá um undirleik. Hópurinn hefur á efnisskrá sinni úrval dansa sem iðkaðir hafa verið á Íslandi allt fram til 20. aldar. Kappkostað er að velja heildstæða efnisskrá hverju sinni, bæði eldri og yngri dansa. Á meðal þess sem hópurinn hefur á efnisskrá sinni eru vikivakar, valsar, rælar og gagndansar s.s. Kvennakeðja og Lancier. Einnig má nefna sjaldgæfa dansa eins og Skelli, Vefaradansinn og dansinn Laugardagskvöldið á Gili eftir Sigríði Valgeirsdóttur.

Aðal leiðbeinandi hópsins í upphafi var Helga Þórarinsdóttir. Dansstjóri og þjálfari á síðari árum er Ásrún Kristjánsdóttir.

Hafdís Pétursdóttir hefur verið formaður hópsins frá upphafi.