Kvæðamenn

GefjunKvæðamannafélagið Gefjun var stofnað á Akureyri 13. nóvember 2005. Á óvart kom er félagið var stofnað hve margir kunnu skil á rímnakveðskap og höfðu áhuga. Stofnfélagar voru 14 en hefur fjölgað síðan. Algengt er að 12-14 manns mæti á fundi. Fundir eru haldnir fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði og eru á milli klukkan 20:00 og 22:00, en sumarmánuðina þrjá eru ekki haldnir fundir. Fundir fara þannig fram að félagar kveða sig inn í fundinn með upphafsstemmum Gefjunar, svo eru kveðnar saman nokkrar stemmur sem allir kunna til að hita upp, kenndar nýjar stemmur og rímur og fluttur annar fróðleikur um íslensku rímnahefðina. Íslensk þjóðlög hljóma og vikivakar til að brjóta upp dagskrána. Félagsmenn lesa upp úr bókum hvort sem eru ljóðabækur eða frásagnabækur, flytja vísur, spjalla og fá sér kaffi og meðlæti. Fundir eru frjálslegir og skemmtilegir. Í lok hvers fundar kveða félagsmenn lokastemmur Gefjunar áður en haldið er heim. Tilgangur og helstu stefnumál félagsins eru: að æfa og iðka kveðandi og kvæðalög sem og önnur íslensk þjóðlög - að fræðast um rímnahætti, rímnalög og íslenskan tónlistararf og kynna þetta öðrum.

IðunnKvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 15. september 1929 og hefur tilgangur félagsins frá upphafi verið að æfa kveðskap og safna rímnalögum og alþýðuvísum, fornum og nýjum. Reglubundið starf Kvæðamannafélagsins fer fram á tímabilinu frá október og fram í maí. Á því tímabili eru haldnar kvæðalagaæfingar og fundir í fyrstu viku hvers mánaðar. Miðvikudagskvöld fyrir félagsfund eru haldnar kvæðalagaæfingar. Á kvæðalagaæfingum er kennt að kveða, stemmur kenndar, oft líflegar samræður og að sjálfsögðu hraustlega kveðið. Á föstudagskvöldum eru félagsfundirnir haldnir. Allir fundir og æfingar félagsins fara fram í Gerðubergi í Breiðholti og hefjast klukkan 20:00 nema Heiðmerkurgleðin sem fer fram við Grunnuvötn í Heiðmörk. Allir eru velkomnir á æfingar og fundi félagsins og eru félagsmenn hvattir til að taka með sér gesti.

RímaKvæðamannafélagið Ríma var stofnað í Fjallabyggð á 150 ára fæðingarafmæli sr. Bjarna Þorsteinssonar, 14. október 2011. Stofnfundurinn var haldinn í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði og eru stofnfélagar 24. Kvæðamannafélagið Ríma leitar í allar tegundir þjóðtónlistar okkar íslendinga - þjóðlög, kvæðalög, fimmundasöng og tvísöngva. Þau vilja ná tökum á stíl og raddbeitingu gömlu kvæðamannanna og jafnframt að hver og einn finni sína kvæðamannsrödd. Sem hópur leitar Ríma einnig leiða til að útfæra sönglist sína á nýstárlegan hátt. Kvæðastundir eru á ýmsum stöðum á Siglufirði en ætíð kl. 17:00 alla sunnudaga frá september og út maí mánuð. Allir eru hjartanlega velkomnir, hvort sem þeir vilja syngja með eða bara hlusta og skemmta sér. Ríma heldur jólatónleika, vortónleika og hressandi kvæðastundir á veitingahúsum í Fjallabyggð fyrir vetrarmánuðina.