Spilmenn Ríkínís

Spilmenn RíkínísSpilmenn Ríkínís er fjölskylduhljómsveit frá Reykjavík, stofnuð 2006 og með fjölbreytta efnisskrá. Þau eru sérfræðingar í tónlist sem finnast í gömlum íslenskum handritum og sálmabókum, sem og íslenskri þjóðlagatónlist. Þau spila á hljóðfæri sem talið er að spilað hafi verið á á Íslandi fyrr á öldum og voru útbreidd í Evrópu á miðöldum. Auk hefðbundna langspilsins spila þau á hörpu, rebec fiðlu, symphon og hornaflautu (gemshorn: búið til úr geita- eða kindahorni). Þau hafa smíðað nokkur af hljóðfærum sínum sjálf. Tónlist þeirra flytur okkur til liðinna daga, sem samt hefur djúp áhrif á okkur á 21. öldinni. 

Þau segja að „það er ómögulegt að segja hvort tónlistin hljómi núna eins og hún gerði þá, en að syngja og spila þessa tónlist og að spila á þessi hefðbundnu hljóðfæri virðist vekja upp löngu týnda hljóma og eins og við endurupplifum raunveruleika sem hefur verið hjá okkur alla tíð án okkar vitundar“. 

Spilmenn Ríkínís sækja nafn sitt til Ríkíní sem var munkur sem var frá stað þar sem nú eru landamæri Frakklands og Þýskalands. Hann hafði ferðast til Íslands snemma á 12. öldinni til að kenna söng í dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal.

Að þessu sinni hafa Spilmenn fengið til liðs við sig norsku tónlistarkonuna Birgit Djupedal sem auk þess að vera tónskáld leikur á norska þjóðarhljóðfærið langeleik, sem er systurhljóðfæri langspilsins. Birgit hefur útsett fyrir hópinn og gestir Vöku fá meðal annars að kynnast útsetningum hennar sem leitast við að tengja norska og íslenska þjóðlagahefð.

Birgit Djupedal (1994-) er fædd og uppalin í Noregi. Hún stundaði nám í Þrándheimi í tónlistarfræði og kirkjutónlist. Þar lærði hún líka píanó- og orgelleik og kórstjórn. Hún er um þessar mundir að klára mastersnám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi hennar er Hróðmar I. Sigurbjörnsson. Hún hefur samið barnaleikrit og verk fyrir kóra og ýmsar hljómsveitir. Útsetning hennar á jólasálminum "Kom blessuð, ljóssins hátíð" var flutt í Ríkissjónvarpinu á aðfangadag 2016. Árið 2017 fékk Birgit styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að rannsaka og semja tónlist fyrir þjóðlagahljóðfærin langspil og langeleik. Hún hefur unnið náið með Spilmönnum Ríkínís, þar á meðal í tenglsum við áðurgreint verkefni, og þau hafa spilað saman á ráðstefnunni Hugarflug og í vinnustofu hjá Rannsóknarstofu í tónlist. Í þeirri tónlist sem Birgit samdi fyrir verkefnið vinnur hún með það sem er líkt og ólíkt milli hljóðfæranna og með þjóðlagatónlist landanna tveggja, Íslands og Noregs. 

Meðlimir Spilmanna Ríkínís á Vöku eru:

Ásta Sigríður Arnardóttir sem syngur og leikur á gígju, langspil og symfón,
Marta Guðrún Halldórsdóttir sem syngur og leikur á langspil, symfón og hörpu,
Örn Magnússon sem syngur og leikur á symfón, langspil, hörpu og gígju og
Birgit Djupedal sem syngur og leikur á langeleik og langspil.