Spilmenn Ríkínís

Spilmenn RíkínísSpilmenn Ríkínís hafa leikið og sungið saman í 11 ár. Þeir hafa einkum flutt tónlist úr íslenskum handritum og af gömlum sálmabókum en einnig úr íslenskum þjóðlagaarfi. Við flutninginn er sungið og leikið á hljóðfæri sem til voru á Íslandi fyrr á öldum og eiga flest sinn sess í miðaldatónlist Evrópu, svo sem langspil, hörpu, gígju og symfón.

Nokkur þessara hljóðfæra hafa meðlimir hópsins smíðað sjálfir en önnur hafa verið smíðuð af bestu fáanlegu hljóðfærasmiðum. Hópurinn kennir sig við Ríkíní sem var fyrsti söngkennari Hólaskóla þegar  hann var stofnaður í upphafi 12. aldar. Að þessu sinni hafa Spilmenn fengið til liðs við sig norsku tónlistarkonuna Birgit Djupedal sem auk þess að vera tónskáld leikur á norska þjóðarhljóðfærið langeleik, sem er systurhljóðfæri langspilsins. Birgit hefur útsett fyrir hópinn og gestir Vöku fá meðal annars að kynnast útsetningum hennar sem leitast við að tengja norska og íslenska þjóðlagahefð.

Meðlimir Spilmanna Ríkínís á Vöku eru:

Ásta Sigríður Arnardóttir sem syngur og leikur á gígju, langspil og symfón,
Marta Guðrún Halldórsdóttir sem syngur og leikur á langspil, symfón og hörpu,
Örn Magnússon sem syngur og leikur á symfón, langspil, hörpu og gígju og
Birgit Djupedal sem syngur og leikur á langeleik og langspil.