Handíðir

Á Vöku mun Þjóðháttafélagið Handraðinn setja upp tvær handíðasýningar:

LAUSAVASILausavasar: Konur úr Handraðanum hafa saumað lausavasa, en lausavasa notuðu konur hér áður fyrr og geymdu í þeim lykla, nálhús, hníf og fl.. Þeir voru gjarnan mikið skreyttir með útsaum en einnig einfaldir og þá hafðir undir svuntunni. Mun þessi tíska hafa haldist fram á aldamótin 1900, en svipaða vasa báru konur víða í Evrópu. Boðið verður upp á örnámskeið í að sauma lausavasa. [mynd af lausavasa er í eigu Þjóðminjasafns Íslands og birt með leyfi safnsins]

Þjóðlist & þjóðmenning: Í tilefni af “Kvennaári” sýna 8 konur verk sín sem þær hafa unnið út frá þjóðmenningu Íslands. Þær eru: Oddný E. Magnúsdóttir, Jenný Karlsdóttir, Guðrún H. Bjarnadóttir, Ólöf Oddsdóttir, Beate Stormo, Lene Zachariassen, Guðrún Steingrímsdóttir og Hólmfríður Bjartmarsdóttir

Starfsdagar

Þjóðháttafélagið Handraðinn er félagsskapur fólks sem vinnur að því að viðhalda þekkingu á þjóðháttum landsins hvort sem er í handverki, tónlist, sagnahefð eða náttúru. Félagsskapurinn var stofnaður í Laufásbænum fimmtudaginn 22. nóvember 2001 og hét þá Laufáshópurinn. Í janúar 2010 var nafni félagsins breytt í Þjóðháttafélagið Handraðinn og starfa innan félagsins Laufashópurinn, Miðaldahópurinn og ýmsar nefndir, eins og fatanefnd, matarnefnd, laufabrauðsnefnd, ferðanefnd, fræðslunefnd, heyannnanefnd.

Helstu verkefni Handraðans eru Starfsdagar að Laufási, Gásakaupstaður um miðjan Júlí og fjölmörg námskeið í íslenskum handíðum.

Laufáshópurinn glæðir gamla Laufásbæinn lífi á Starfsdögum í Laufási og líkir eftir lífinu í bænum eins og það var síðustu árin sem Laufás var í byggð (1900-1930). Starfsdagarnir eru haldnir fjórum sinnum á ári; Vorverk, Heyannir, Haustverk og Jólaannir.

Gásir

Miðaldahópurinn starfar á Gásadögum með því að setja búðir upp á Gásum og skapa andrúmsloft sem líkist því sem var í Gásakaupstað á miðöldum. 

Önnur verkefni Handraðans hafa verið t.d. Handverkshátíðin að Hrafnagili, heimsóknir í Sænautasel, þátttaka í starfi Minjasafnsins, námskeiðahald, heyannir við Akureyrar Akademíuna, þátttaka í Víkingahátíðinni í Hafnafirði og fl.

Allir sem áhuga hafa á að viðhalda þekkingu á þjóðháttum landsins eru hvattir til þáttöku. Nánari upplýsingar veitir formaður Handraðans, Hadda, í síma 899-8770 og gudrunhadda@gmail.com